U1 Losun gróðurhúsa­lofttegunda

Loftslagsmarkmið

Samstæða OR stefnir á kolefnishlutleysi árið 2030 en hlutfall heimila á Íslandi sem reiða sig á neysluvatn, fráveitu, rafmagn, hitaveitu og gagnaveitu með lágt kolefnisspor frá samstæðu OR er 45 til 75%.

Aukin föngun og förgun á koltvíoxíði í bergi við Hellisheiðarvirkjun og við Nesjavallavirkjun með Carbfix aðferðinni vegur þyngst í að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá samstæðunni. Raf- og metanvæðing bílaflota fyrirtækisins skiptir einnig miklu máli og að Veitur vinna að verkefnum til að bæta viðnámsþrótt veitukerfa vegna loftslagsvár.

Árið 2020 var hlutfallsleg föngun og binding koltvíoxíðs frá Hellisheiðarvirkjun í berg um 25% af útblæstri virkjunarinnar. Það er svipað hlutfall og árið 2019 en hlutfallsleg losun koltvíoxíðs hefur hins vegar aukist frá árinu 2018. Tvennt veldur; aukin orkuframleiðsla í Hellisheiðarvirkjun og hár styrkur koltvíoxíðs í gufunni frá öflugri borholu í Hverahlíð, sem tengd var við virkjunina á árinu 2020. Aðra skýringu stærra kolefnisspors samstæðunnar á árinu 2020 má rekja til sóttvarnarráðstafana vegna COVID-19. Stór hluti starfsfólks vinnur að framkvæmdum og til að draga úr smithættu var því skipt í hópa og fékk hver hópur bíl úr bílaflota OR til afnota, hvort tveggja til að sinna starfi sínu og ferðast milli heimilis og vinnu. Losun vegna ferða starfsfólks í og úr vinnu og vegna flugferða starfsfólks dróst hins vegar verulega saman í kjölfar vinnu heiman frá og vegna ferðabanns hjá OR vegna heimsfaraldursins.

Í desember samþykkti framkvæmdastjórn að ráðast í að kolefnisjafna bílaflota, flug o.fl. hjá samstæðunni vegna ársins 2020 með endurheimt votlendis á vegum Votlendissjóðs og með þróunaraðstoð á vegum Sameinuðu þjóðanna sem felst í að bæta eldunaraðstöðu í Malaví.

Upprunaábyrgðir raforku hafa fylgt allri raforkunotkun samstæðunnar OR 2016 til 2020. Það var ekki raunin árið 2015 vegna raforkunotkunar Veitna, OR og GR og skýrir það meiri losun það ár.

Útreikningar á losun gróðurhúsalofttegunda eru í samræmi við staðalinn Greenhouse Gas Protocol – Corporate Accounting and Reporting Standard.

Bein og óbein losun samstæðu OR, binding með landbótum og kolefnisjöfnun, 2015-2030

Bein og óbein losun gróðurhúsalofttegunda

Árið 2020 var umfang 1 eða bein losun frá kjarnastarfsemi samstæðu OR rúmlega 49.250 tonn CO2 ígilda. Umfang 2 eða óbein losun vegna notkunar rafmagns og hita í kjarnastarfsemi samstæðu OR var engin því samstæðan framleiðir rafmagn inn á landsnetið og er gerð grein fyrir losuninni í umfangi 1. Umfang 3, óbein losun, var um 1.300 tonn CO2 ígilda. Þetta eru ekki tæmandi upplýsingar um umfang 3 því ekki er tekið tilli til framleiðslu aðfanga.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá samstæðu OR er um 1% af heildarlosun á Íslandi miðað við heildarlosun 2018 (Umhverfisstofnun, 2020).

Bein og óbein losun samstæðu OR árið 2020

Carbfix

Tilraunastöð vegna Carbfix kolefnisförgunarinnar var byggð á á árunum 2009-2010. Við hana þurfti að hafa til taks koldíoxíð á kút til að hægt væri að prófa niðurdælingarhluta þróunarverkefnisins þótt stöðin, sem kölluð var Geirþrúður, stæði á sér. Árið 2014 tók Orka náttúrunnar í gagnið nýbyggða lofthreinsistöð byggða á þróunarstarfinu. Nú eru áform um stækkun hennar og að byggja aðra slíka við Nesjavallavirkjun.

Myndir: Ljósm.safn OR