COVID-19

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hafði afgerandi áhrif á starfið hjá Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækjunum árið 2020. Sérstakan vörð þarf að standa um kjarnaþjónustu samfélaga á borð við veiturekstur og orkuvinnslu. Faraldurinn og viðbrögð við honum leiddu líka skýrlega í ljós að öflug gagnaveita er grundvallarþáttur í því hversu sterkt viðnám samfélög hafa við ógn af þessu tagi. Vegna þessara almannahagsmuna, sem OR er trúað fyrir, voru viðbrögð við kórónuveirunni kröftug og þau báru árangur.

Neyðarstjórn og upplýsingamiðlun til starfsfólks

Neyðarstjórn OR kom fyrst saman vegna yfirvofandi heimsfaraldurs í janúar 2020. Neyðarstjórnina skipa forstjóri, framkvæmdastjórar og framkvæmdastýrur, öryggisstjóri, umhverfisstýra, stjórnandi samskipta og samfélags og starfsmaður í öryggis- og heilsuteymi. Hún átti eftir að funda 113 sinnum á árinu 2020, öll skiptin vegna faraldursins og viðbragða við honum. Á fundum neyðarstjórnar voru settar reglur um starfsemina í samræmi við opinber tilmæli og viðbragðsáætlanir fyrirtækjanna.

Frá 2. mars sendi forstjóri OR öllu starfsfólki upplýsingapóst á íslensku og ensku með tölulegum upplýsingum um stöðu faraldursins í samfélaginu og innan OR. Í póstunum, sem urðu alls 104 talsins á árinu, var jafnframt greint frá ákvörðunum neyðarstjórnar hverju sinni. Á meðal ráðstafana sem gripið var til voru;

  • tilmæli um tilkynningar um ferðalög til útlanda snemma faraldursins, áður en landamæraskimun hófst,
  • tilmæli um að ekki væri mætt til vinnu væri starfsmaður eða heimilisfólk með flensulík einkenni,
  • sérstakar varnir stjórnstöðvar, meðal annars með algerum aðskilnaði vakta,
  • sérstakar varnir vinnuflokka og annars sérhæfðs starfsfólks, meðal annars með því að tryggja aðskilnað hópa,
  • samfelld fræðsla, upplýsingagjöf og hvatning til starfsfólks,
  • heimavinnuskylda,
  • fjöldatakmörk,
  • almennar sóttvarnir,
  • grímuskylda þar sem nándarmörkum var ekki viðkomið,
  • reglur og takmarkanir settar á umgengni um mötuneyti starfsfólks,
  • tímabundið bann við að fundað yrði með utanaðkomandi nema á fjarfundi og síðar takmarkanir á fundum með utanaðkomandi í húsakynnum OR,
  • áskoranir sendar starfsfólki um að viðhafa sóttvarnir utan vinnutíma.

Árangurinn var sá að enginn smitaðist innan fyrirtækisins svo vitað sé og enginn þjónustubrestur varð vegna faraldursins. Eins og fjallað er um í kafla F8 fækkaði veikindadögum starfsfólks á árinu 2020.

Myndin að neðan er úr mælaborði sem OR kom upp vegna faraldursins og sýnir uppsafnaðar tölur til ársloka 2020.

Skjámynd af mælaborði OR vegna COVID-19

Lokunum fækkaði

Á undanförnum árum hefur OR unnið markvisst að umbótum á innheimtu viðskiptakrafna. Áhersla er á að hjálpa fólki sem lendir í vanskilum út úr þeim. Úrræðum þjónustufulltrúa til að leysa úr málum hefur verið fjölgað og skerpt hefur verið á innheimtuferlinu öllu. Þetta hefur átt þátt í því að vanskil hafa minnkað og lokunum vegna vanskila fækkað mjög.

Þegar efnahagsáfall vegna COVID-19 var fyrirséð, snemma árs 2020, var ákveðið að sýna enn frekari sveigjanleika við innheimtu og lokunum vegna vanskilaði fækkaði milli áranna 2019 og 2020 þótt vanskil hafi aukist, einkum hjá fyrirtækjum.

Fjöldi lokana vegna vanskila 2006-2020

Áhrif á kolefnisspor

Áhrif faraldursins og viðbragða við honum á kolefnisspor OR var og er ennþá margþætt. Margar breytinganna draga úr losun en aðrar auka hana. Losun vegna flugferða þurrkaðist nánast út á árinu. Stór hluti starfsfólks vann að heiman meirihluta ársins. Við það dró úr ferðum til og frá vinnu. Ferðum á fundi innanlands eða innanbæjar stórfækkaði einnig með fjarvinnunni.

Á móti vegur að stór hluti starfsfólks vinnur að framkvæmdum og til að tryggja sóttvarnir var þeim skipt í hópa og fékk hver hópur bíl úr bílaflota OR til afnota og til að ferðast milli heimilis og vinnu. Það jók akstur margs starfsfólks. Þá jókst hluti úrgangs vegna sóttvarnarbúnaðar.

Fjarskipti

Eldri myndin sýnir símastaur við Laugaveg í Reykjavík fyrir um hundrað árum og sú nýrri ljósleiðarastrengi Gagnaveitu Reykjavíkur í jörðu. Ljósleiðarinn liggur nú til um 75% heimila á Íslandi.

Myndir: Sarpur/Þorleifur K. Þorleifsson og myndasafn Gagnaveitu Reykjavíkur.