Ábyrg umgengni og vinnsla úr lághitaauðlindum

Árið 2020 var vinnsla á lághitasvæðum Veitna á höfuðborgarsvæðinu og flestum dreifisvæðum á landsbyggðinni í samræmi við skilgreiningu og markmið fyrirtækisins og ákvæði í lögum og reglugerðum.

Höfuðborgarsvæðið

Veitur reka þrettán hitaveitur; eina á höfuðborgarsvæðinu sem er sú stærsta, fimm á Vesturlandi og sjö á Suðurlandi. Hitaveiturnar þjóna um 65% þjóðarinnar. Lághitasvæðin á höfuðborgarsvæðinu eru nýtt jafnt og þétt. Eftirspurn á heitu vatni hefur aukist á höfuðborgarsvæðinu og til að mæta henni var ráðist í stækkun varmastöðvar á Hellisheiði og lauk henni í september 2020.

Sumarið 2019 var heitu vatni frá jarðvarmavirkjunum veitt tímabundið til Mosfellsbæjar, Árbæjar, Ártúnshöfða og Kjalarness í nokkrar vikur. Sumarið 2020 var aðgerðin útvíkkuð og allt höfuðborgarsvæðið utan Kjalarness og sveita í Mosfellsdal fékk heitt vatn frá jarðvarmavirkjunum í allt að þrjá mánuði. Með þessari aðgerð var létt tímabundið á vinnslu úr lághitasvæðum á Reykjum, í Reykjahlíð, Laugarnesi og Elliðaárdal sem gerði það mögulegt að safna meiri forða fyrir veturinn. Stefnt er að áframhaldandi aðgerðum næstu sumur til að minnka sumarvinnslu úr lághitasvæðunum og nýta betur þann varma sem framleiddur er í virkjunum.

Nasi

Í september 2020 hófst viðhaldsborun lághitaholu Veitna við Bolholt í Reykjavík. Holan er ein sú gjöfulasta á Laugarnessvæðinu. Hún var upphaflega boruð 1963 en komnar voru fram þrengingar í henni.

Suður- og Vesturland

Ástand flestra lághitasvæða á Suður- og Vesturlandi er gott en þó eru undantekningar þar á.

Afla þarf meira heits vatns fyrir Rangárveitu sem þjónar m.a. þéttbýliskjörnunum Hellu og Hvolsvelli. Þrýstingur hefur fallið í jarðhitakerfinu í Hveragerði og aðkallandi að tryggja nægt heitt vatn fyrir hitaveituna. Tilkoma háhitadjúpdælu í helstu vinnsluholuna í Hveragerði gerir Veitum kleift að reka hana án þess að láta hana blása gufu sem er kostur því hún er í miðri byggð. Ennfremur er unnt að stýra betur því magni heits vatns sem tekið er úr holunni sem bætir auðlindanýtingu. Notkun háhitadjúpdælu í hitaveitu er þróunarverkefni en reynist búnaðurinn áfram vel er um að ræða framfaraskref í nýtingu jarðvarma.

Borað eftir heitu vatni

Eldri myndin er af „nýja bornum“ eins og segir í ljósmyndaskrá, líklega tekin í Mosfellssveit um 1940. Sú nýrri er tekin sumarið 2020 þegar Nasi, bor Ræktunarsambands Flóa og Skeiða vann að dýpkun borholu Veitna við Bolholt.

Myndir: Ljósm.safn OR.