Að draga úr losun frá samgöngum er eitt helsta sóknarfæri Íslendinga í loftslagsmálum og raunar einnig í loftgæðamálum í þéttbýli. Vegna eðlis starfsemi OR og dótturfélaga getur samstæðan lagt gott til með því að stuðla að orkuskiptum í samgöngum.
Á árinu 2020 setti Orka náttúrunnar upp fyrstu 150 kílóvatta hleðslurnar fyrir rafbíla, OR styrkti uppsetningu hleðslubúnaðar við fjölbýlishús og Veitur áttu aðild að samningi um rafvæðingu Reykjavíkurhafnar, sem ætlað er að draga úr losun vegna hafnarstarfseminnar um hátt í 10 þúsund tonna CO2-ígilda á ári.
Þrefalt öflugri hleðslur ON
Á árinu 2020 opnaði ON almenningi sex nýjar hraðhleðslur sem eru þrefalt öflugri en þær sem fyrir voru, það er 150 kW en hraðhleðslurnar sem settar höfðu verið upp frá árinu 2014 eru 50 kW. Rafbílum sem geta nýtt sér þessar öflugu stöðvar fjölgar stöðugt og ráðgert er að setja upp svo öflugar hleðslur á hátt í tug staða til viðbótar. Þá fjölgaði einnig talsvert á árinu aflminni hleðslum ON, allt að 22 kW, sem settar eru upp fyrir fyrirtæki eða húsfélög og eru að jafnaði ekki opnar almenningi. Á haustdögum 2020 varð ON hlutskarpast í útboði tveggja sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar og Garðbæjar, á uppsetningu samtals um 180 slíkra hleðslustöðva við almenn bílastæði í eigu sveitarfélaganna. Áformað var að ljúka því verkefni á fyrsta ársfjórðungi 2021.
Á árinu runnu út samningar við nokkur fyrirtæki um staðsetningu hleðslustöðva ON, einkum við þjónustustöðvar olíufélaga. Brugðist var við því með uppsetningu nýs búnaðar í grennd við þann sem samningur rann út um. Samkeppni á hleðslumarkaði fór vaxandi á árinu, ný fyrirtæki hösluðu sér völl og fram kom kvörtun á hendur ON fyrir framgöngu á markaði. ON hafnaði þeim sjónarmiðum sem að baki henni lágu. Málið var enn til meðferðar hjá yfirvöldum í árslok.
Fjöldi rafbíla á Íslandi og ON hlaðanna
Styrkir til húsfélaga
Vorið 2019 var undirritað samkomulag milli Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur og Veitna um stórfellda uppbyggingu innviða í borginni fyrir rafbílaeigendur. Samkomulagið felur í sér að Veitur leggja til heimtaugar fyrir hleðslubúnað við starfsstöðvar sveitarfélagsins og eftir ábendingum íbúa. Þá leggja OR og Reykjavíkurborg fé í sjóð til að styrkja húsfélög fjölbýlishúsa til að koma upp hleðslubúnaði fyrir íbúa. Veitur og OR gerðu síðan samsvarandi samning við Akraneskaupstað.
Taflan að neðan sýnir greiðslur OR til húsfélaga samkvæmt samningnum.
2019 | 2020 | |
---|---|---|
Í Reykjavík | 387.863 kr. | 16.266.234 kr |
Á Akranesi | 2.430.414 kr. |
Rafvæðing Reykjavíkurhafnar
Veitur, Faxaflóahafnir og ríkið leggja til 100 m.kr. hvert um sig í fyrsta áfanga eflingar rafmagnstenginga fyrir stór skip og ef allt gengur að óskum munu flutningaskip Eimskipa og Samskipa geta tengst landrafmagni á árinu 2021. Verkefnið er í samræmi við stefnu Íslands í loftslagsmálum. Forsenda öflugri tenginga er bygging nýrrar aðveitustöðvar Veitna við Sægarða en hún mun einnig efla afhendingaröryggi rafmagns víða um höfuðborgarsvæðið.
Eldri myndin er frá árinu 1983 og sýnir ónefnda unga konu munda bensíndæluna, til þjónustu reiðubúin. Nýrri myndin er af Hafrúnu Þorvaldsdóttur, verkefnastjóri hleðslunets Orku náttúrunnar. Hún er í fararbroddi þess teymis sem leitt hefur uppbyggingu hraðhleðslustöðva ON vítt og breitt um landið.
Myndir: Ljósm.safn Reykjavíkur/Kristjón Haraldsson og myndasafn ON.