Í starfsemi OR, þar sem lögð er áhersla á stöðugar umbætur, verður til margháttuð þekking sem nýst getur öðrum. Ræðst það meðal annars af;
- forystu fyrirtækja innan samstæðunnar í jarðhitanýtingu,
- að Veitur eru langstærsta fyrirtæki sinnar tegundar á landinu og
- að Gagnaveita Reykjavíkur er með útbreiddasta ljósleiðaranet landsins.
OR lítur á það sem hlutverk sitt að miðla reynslu og þekkingu til annarra sem geta haft not af.
Árlega hefur OR haldið Vísindadag, þar sem ýmis þróunarverkefni eru kynnt. Sú samkoma féll niður árið 2020 vegna kórónuveirufaraldursins. Nokkrir starfsmenn samstæðunnar kenna reglulega við háskóla og orkuskóla hér á landi og halda erindi á fagráðstefnum á Íslandi og erlendis.
Jarðhitasýningin og Elliðaárstöð
Um árabil hefur Jarðhitasýning Orku náttúrunnar tekið á móti skólabörnum í Hellisheiðarvirkjun. Vegna heimsfaraldursins voru á árinu 2020 þróaðar rafrænar heimsóknir í þessu skyni sem fjöldi bekkjardeilda nýtti sér. Jarðhitasýningin var annars lokuð gestum mestan hluta ársins.
OR kynnti á árinu áform um uppbyggingu sögu- og fræðslusýningar í Elliðaárdal. Elliðaárstöð er heiri verkefnisins og verður með því til ný upplifun í Elliðaárdal þar sem börn og fullorðnir fræðast um sögu og vísindi í lifandi leik. Húsaþyrpingin við Rafstöðvarveg fær nýtt hlutverk þar sem skólahópar, fjölskyldur, útivistarfólk og aðrir geta kynnt sér vísindin og tæknina á bak við veitukerfin sem byltu lífsgæðum í Reykjavík. Stefnt er á að opna sýninguna á 100 ára afmæli gömlu rafstöðvarinnar, sumarið 2021.
Grænn viðskiptahraðall
Síðla árs 2020 gerðist Orkuveita Reykjavíkur aðili að grænum viðskiptahraðli ásamt atvinnuvega og - nýsköpunarráðuneytinu, Reykjavíkurborg, Hvalfjarðarsveit, Faxaflóahöfnum, Sorpu og Terra auk Þróunarfélags Grundartanga og Breið Þróunarfélags.
Markmið Græns hraðals er að á Íslandi rísi stór og stöndug fyrirtæki sem byggja á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins, skapi störf og skili árangri í umhverfismálum. Með því að efla stuðning við sjálfbæra nýsköpun og þróun nýrra lausna á sviði umhverfis- og loftslagsmála má jafnframt stuðla að auknu útflutningsverðmæti sem byggir á hugviti.
Umsjón með hraðlinum er í höndum Icelandic Startups.
Miðlun þekkingar á Carbfix
Sá fróðleikur sem hefur víðast ratað er vafalaust sú þekking sem vísindafólk OR hefur aflað í samstarfi við fjölda annarra vísindamanna um bindingu jarðhitalofttegunda í basalti. Fjöldamargir mjög útbreiddir fjölmiðlar í heiminum hafa fjallað um verkefni OR og ON við Hellisheiðarvirkjun, sem þykir einstakt. Á meðal miðla sem fjölluðu um Carbfix á árinu 2020 eru;
- Nature
- BBC Future
- The Weather Channel
- The Economist
- Netflix
- The Guardian