Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur er skipuð sex mönnum. Fimm, þar á meðal formaður og varaformaður, eru kjörnir af borgarstjórn Reykjavíkur og einn af bæjarstjórn Akraness. Sveitarstjórn Borgarbyggðar tilnefnir áheyrnarfulltrúa í stjórn og á árinu 2020 var samþykkt samhljóða í stjórn OR að bjóða Starfsmannafélagi Orkuveitu Reykjavíkur einnig sæti áheyrnarfulltrúa. Það var þegið og formaður félagsins var tilnefndur af félaginu.
Formaður stjórnar OR má ekki taka að sér önnur störf fyrir fyrirtækið.
Stjórn ræður forstjóra fyrirtækisins, semur starfslýsingu hans og gengur frá starfslokum. Forstjóri annast allan daglegan rekstur fyrirtækisins og fer með eignarhluti í dótturfélögum OR. Forstjóri OR má ekki vera í stjórn OR og stjórnarmenn í OR mega ekki sitja í stjórn dótturfélags.
Kveðið er á um verkaskiptingu forstjóra og stjórnar í starfsreglum stjórnar og starfslýsingu forstjóra en forstjóri situr ekki í stjórnarnefndum.
Forstjóri OR situr ekki í stjórnum dótturfélaga en í þeim skulu þrír fulltrúar vera starfsmenn OR, þar af a.m.k. einn úr stjórnendahópi OR. Sá eða sú skal vera formaður. Allar stjórnir dótturfélaga OR eru skipaðar fimm mönnum, þremur úr starfsliði OR-samstæðunnar og tveimur utanaðkomandi sérfræðingum á starfssviði viðkomandi fyrirtækis.
Litið er svo á að fólk sem á sæti í sveitarstjórn eigendasveitarfélaganna sé ekki óháð og það sama á við um það starfsfólk samstæðunnar sem á sæti í stjórnum dótturfélaga. Hlutfall óháðra fulltrúa meðal stjórnarfólks OR hefur verið óbreytt frá árinu 2010.
Stjórnarmenn óháðir félögum í samstæðu OR eða eigendum þeirra
Stjórn OR leggur áherslu á gegnsæi í störfum sínum og fundargerðir stjórnarfunda auk fundargagna, sem ekki ríkir trúnaður um, eru öllum aðgengilegar á vef fyrirtækisins. Í fundargerðirnar eru meðal annars skráðar allar ákvarðanir stjórnar og stjórnarmenn hafa rétt á að bóka stuttlega um afstöðu sína til einstakra mála.