Fylgst er með virkni jarðhita á yfirborði á Hengilssvæðinu sem getur breyst náttúrulega en einnig vegna jarðvarmavinnslu. Engin ákveðin leið er til að greina vel á milli hvort um náttúrulegar breytingar er að ræða eða af mannavöldum en þó er reynt að leggja mat á það með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni. Breytingar á yfirborðsvirkni hófust til dæmis í Hverahlíð eftir að holur voru boraðar þar og því hægt að leiða að því líkum að breytingarnar tengist nýtingu jarðhitans á svæðinu.
Nesjavellir og Hellisheiði
Árið 2020 var orkuvinnsla á Nesjavöllum og á Hellisheiði í samræmi við nýtingarleyfi og markmið Orku náttúrunnar. Undanfarin ár hefur viðhald vinnslugetu virkjananna á Hengilssvæðinu verið eitt af mikilvægustu verkefnum fyrirtækisins.
Lokið var við borun á einni niðurdælingarholu við Hellisheiðarvirkjun 2020 og var hún tekin í notkun í október. Í kjölfarið hefur verið unnt að draga úr niðurdælingu innan vinnslusvæðisins. Staða gufuforða í á vinnslusvæði Hellisheiðarvirkjunar hefur dalað frá árinu 2019 vegna niðurdráttar. Þrjár háhitaholur á Hellisheiði bíða þess að verða tengdar við virkjunina og munu þær auka vinnslugetu í náinni framtíð. Árið 2020 mældist aukinn niðurdráttur í Hverahlíð vegna aukinnar vinnslu. Ein vinnsluhola var boruð á Nesjavöllum árið 2020. Staða gufuforða á vinnslusvæði Nesjavallavirkjunar er óbreytt frá árinu 2019.
Þrátt fyrir að nýjar virkjanir séu ekki á döfinni á Hengilssvæðinu er fyrirsjáanlegt að stækka þarf núverandi vinnslusvæði ef viðhalda á fullri vinnslu í Hellisheiðarvirkjun og í Nesjavallavirkjun til lengri tíma. Forrannsóknir á mögulegum vinnslusvæðum eru hafnar til að undirbyggja faglega ákvarðanatöku um framtíðarsýn orkuöflunar og til að tryggja sjálfbæra nýtingu jarðhitaauðlindarinnar.
OR samstæðan leggur áherslu á að hagnýting auðlinda sé með sjálfbærum hætti. Um það fjallar myndbandið að neðan.