Samstæða OR hefur umsjón með tæplega 19.000 hekturum lands og eru tæpir 16.000 hektarar innan verndarsvæða. Það eru vatnsverndarsvæði, friðlýst svæði, svæði á náttúruminjaskrá eða svæði sem lúta sérstakri vernd. Um þessi svæði er fjallað í myndbandinu að neðan. Í viðauka er birtur listi yfir verndarsvæði og tegundir fugla og plantna á válista sem hafa þar búsvæði.
Frágangur og umgengni
Lögð er áhersla á góða umgengni, frágang jafnóðum í verkum eins og kostur er, endurheimt náttúrlegs umhverfis og minnkun sjónrænna áhrifa á virkjanasvæðum Orku náttúrunnar og athafnasvæðum Veitna, Carbfix, Gagnaveitu Reykjavíkur og OR. Árið 2020 var skerpt á verklagi og fræðslu til að tryggja enn betri umgengni starfsfólks og verktaka, meðal annars á verndarsvæðum. Gróðurþekju er haldið til haga í framkvæmdum á grónu landi og hún nýtt til endurheimtar staðargróðurs vegna rasks. Þetta er gert í samvinnu við leyfisveitendur og í samræmi við markmið samstæðu OR.
Landgræðsla og skógrækt
Orka náttúrunnar gróðursetti um 6.000 birkitré í um 4 hektara af landi í nágrenni Nesjavallavirkjunar árið 2020 og um 7,5 hektarar af landi voru græddir upp á rofsvæðum utan framkvæmdasvæða. Þetta er í samræmi við stefnu Orku náttúrunnar um stækkun landgræðslusvæða og skógrækt með innlendum trjátegundum.
Gönguleiðir á Hengli
OR hefur umsjón með um 130 km af merktum gönguleiðum á Hengilssvæðinu síðastliðin 30 ár eða frá gangsetningu Nesjavallavirkjunar. Gestum fjölgaði mikið árið 2020 enda svæðið vinsælt til útivistar allt árið, einkum í heimsfaraldri. Sumarið 2020 var ráðist í lokanir á viðkvæmum svæðum, öll fræðsluskilti á fræðsluleiðum voru endurnýjuð og gönguleiðir lagfærðar.
Breytingar á hæð vatnsborðs í Elliðavatni
Í tengslum við umfangsmikla lagnavinnu Veitna neðarlega í farvegi Elliðaánna, var opnað fyrir lokur í Elliðavatnsstíflu í febrúar 2020. Þetta var gert til að fyrirbyggja flóð á framkvæmdasvæðinu. Vatnshæð fór undir viðmiðunarmörk 25. febrúar til 2. mars. Haldnir voru fundir með hagsmunaaðilum í kjölfar atviksins og Hafrannsóknastofnun mat aðstæður í vatninu þannig áhrifin væru að öllum líkindum ekki mikil á lífríki. Unnið hefur verið að undirbúningi rannsókna og vöktunar á lífríki vatnsins til skamms tíma og víðtækari vöktun til lengri tíma. Sú vinna hefst í mars 2021.
Varanleg tæming Árbæjarlóns
Hleypt var endanlega úr Árbæjarlóni, inntakslóni fyrir Elliðaárstöð, í lok október 2020. OR telur sér ekki heimilt að trufla náttúrulegt rennsli Elliðaánna nú þegar rekstur Elliðaárstöðvar hefur verið lagður af enda eru heimildir í starfsleyfi, lögum og reglugerðum sem um rekstur stöðvarinnar fjalla bundnar því að stöðin sé í rekstri.
Margvísleg náttúrufræðileg rök styðja að hætt sé að eiga við rennsli Elliðaánna, nú þegar rekstur Elliðaárstöðvar hefur verið lagður af og ekki er þörf fyrir lónið vegna rafmagnsvinnslu.
Reykjavíkurborg hefur sett á laggirnar stýrihóp með það hlutverk að leggja fram tillögur um hvernig best sé að skila dalnum nú þegar lónið hefur verið tæmt og vinnslu rafmagns hætt.
Viðaukar og annað ítarefni
Starfsfólk Rafmagnsveitu Reykjavíkur hóf skipulega gróðursetningu í Elliðaárdal á 30 ára afmæli Elliðaárstöðvar, árið 1951. Eldri myndin er úr fyrstu gróðursetningarferðinni. Þetta framtak á stærstan þátt í að dalurinn er sú útivistarvin sem hann er í dag.
Myndir: Ljósm.safn OR