Losun jarðhitavatns
Jarðhitavatni er dælt niður við Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun til að vernda yfirborðsvatn og grunnvatn því það er heitara en grunnvatn og með aðra efnasamsetningu. Annað markmið er að stýra niðurdælingu þannig að hún styðji við þrýsting í jarðhitageyminum sem stuðlar að aukinni sjálfbærni nýtingarinnar.
Undanfarin ár hefur verið unnið að mörgum rannsóknar- og þróunarverkefnum til að uppfylla kröfur um niðurdælingu á Hellisheiði og Nesjavöllum með nokkrum árangri.
Hellisheiðarvirkjun
Árið 2020 fór yfir 69,3% af jarðhitavökva sem tekinn var upp úr jarðhitageyminum á Hellisheiði (skiljuvatn og þéttivatn) í niðurdælingu, þar af 99,9% skiljuvatnsins. Það þéttivatn (þétt hrein gufa) sem ekki fór í niðurdælingu (30,6% jarðhitavökvans) gufaði upp í kæliturnum eða var losað í grunnar niðurdælingarholur. Um 0,1% jarðhitavökvans fór á yfirfall niðurdælingarveitu vegna skipulagðra eða óvæntra atvika í rekstri.
Nesjavallavirkjun
Árið 2020 var rúmlega 70% af jarðhitavökva sem tekinn var úr jarðhitageyminum á Nesjavöllum dælt í niðurdælingarholur, þar af um 10% í jarðhitageyminn. Uppbygging í niðurdælingarveitu við virkjunina undanfarin ár leiddi til þess að losun jarðhitavatns hefur undanfarin þrjú ár verið í sögulegu lágmarki .
Þrátt fyrir árangur í niðurdælingarveitu Nesjavallavirkjunar fylgir jarðhitavinnslunni töluverð losun upphitaðs grunnvatns á yfirborð. Eftirlit með grunnvatni með síritandi hitamælingum í borholum og lindum og sýnatöku hefur verið í gangi frá því virkjunin var gangsett árið 1990. Niðurstöður þessara mælinga benda ekki til að hitastig grunnvatns sé að lækka á svæðinu þrátt fyrir minni losun. Ástæður þess eru ekki ljósar en gætu verið þessar:
- Niðurdæling jarðhitavatns skilar sér ekki í kólnun grunnvatns vegna þess að niðurdælingarvatnið blandast í grunnvatnið eftir rennslisleiðum neðanjarðar í berginu sjálfu.
- Endurbætur á losunarleiðum virkjunarinnar hafa ekki skilað sér ennþá í kólnun á grunnvatni við Þingvallavatn.
Meira jarðhitavatn til höfuðborgarsvæðisins
Sumarið 2020 fékk allt höfuðborgarsvæðið utan Kjalarness og sveita í Mosfellsdal heitt vatn frá jarðvarmavirkjunum í allt að þrjá mánuði. Stefnt er að því til frambúðar að minnka sumarvinnslu úr lághitasvæðunum og nýta betur þann varma sem framleiddur er í virkjunum.
Áhrif á lífríki
Fylgst hefur verið með lífríki í Þorsteinsvík við Þingvallavatn frá því áður en Nesjavallavirkjun var reist. Niðurstöður mælinga Náttúrufræðistofu Kópavogs sýna að snefilefni í jarðhitavatni frá virkjuninni sem helst hafa verið talin hafa neikvæð áhrif á lífríki benda ekki til tölfræðilegar marktækrar aukningar í umhverfinu.
Áfram verður unnið að greiningum á stöðu grunnvatns á Nesjavöllum þannig að Orka náttúrunnar nái markmiðum sínum um að minnka umhverfisáhrif Nesjavallavirkjunar.
Skjálftavirkni
Árið 2020 varð skjálfti að stærð 3,6 á niðurdælingarsvæði virkjana ON sem fannst víða en olli ekki tjóni. Því var það markmið samstæðu OR að jarðskjálftar sem hugsanlega tengjast niðurdælingu á jarðhitavatni valdi sem minnstum óþægindum ekki uppfyllt. Markmiðið um að valda ekki tjóni var uppfyllt.
Niðurdæling jarðhitavatns, einkum á Húsmúlasvæðinu, en einnig sprengingar í tengslum við jarðfræðirannsóknir og boranir á háhitasvæðum geta valdið skjálftavirkni, svokallaðri örvaðri skjálftavirkni eða gikkskjálftum. Orka náttúrunna vinnur eftir verklagi sem miðar að því að lágmarka hættu á örvuðum jarðskjálftum á og við Hengilinn.
Tveir skjálftar yfir 3 að stærð urðu á svæðinu árið 2020. Jarðskjálfti af stærð 3,7 varð rúma 4 km norðvestur af Hellisheiðarvirkjun í febrúar 2020. Skjálftinn fannst víða. Engin breyting hafði verið gerð á niðurdælingu jarðhitavatns í aðdraganda hans. Í nóvember 2020 varð jarðskjálfti af stærð 3,3 undir niðurdælingarsvæði við Húsmúla og var þetta stærsti skjálfti sem orðið hefur á svæðinu síðan í september 2016. Skjálftinn fannst í Hveragerði, á Eyrarbakka, á Selfossi og víða á höfuðborgarsvæðinu. Vegna staðsetningar skjálftans og þess að engar breytingar voru gerðar á niðurdælingu jarðhitavatns í aðdraganda hans, er talið að hann tengist þeim spennubreytingum sem langvarandi vinnsla og niðurdæling valda. Tilkynningar voru sendar til leyfisveitenda, annarra hagsmunaaðila og fjölmiðla.
Árið 2020 voru engar tilkynningar sendar til skjálftavaktar Veðurstofu Íslands og Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra vegna breytinga á niðurdælingu.
Viðaukar og annað ítarefni
- Vefsíða skjálftavaktar Veðurstofu Íslands
- Vöktun á snefilefnum í Þingvallavatni vegna Nesjavallavirkjunar
- Losun jarðhitavatns frá Hellisheiði, Hveralíð og Nesjavöllum og vatnsgæði (PDF)
- Rannsóknar- og þróunarverkefni vegna niðurdælingar jarðhitavatns (PDF)
- Þróun skjálftavirkni við Hellisheiðarvirkjun haustið 2011 til ársloka 2020 (PDF)