Umhverfisumbætur við Andakílsárvirkjun

Árið 2020 hélt Orka náttúrunnar fundi með samráðshópi landeigenda við Skorradalsvatn og Andakílsá og með formönnum félags sumarhúsaeigenda í Fitjahlíð við Skorradalsvatn. Sviðsmyndagreiningu er lokið á áhrifum virkjunar á umhverfi og efnahag en greining á áhrifum virkjunar á samfélag í Skorradal og við Andakílsá er í vinnslu. Í kjölfarið verður farið yfir niðurstöðurnar og tekin ákvörðun um fyrirkomulag rekstrar virkjunarinnar. Beðið er niðurstaðna úr áhættumati vegna fyrirhugaðrar hreinsunar aurs úr inntakslóni virkjunarinnar.

Lífríki í Andakílsá

Lífríki í Andakílsá hefur náð sér á strik eftir að mikill aur barst í ána við ástandsskoðun á inntaksstíflu Andakílsárvirkjunar í maí 2017. Meira en sex hundruð laxar veiddust þar í vísindaveiðum sumarið 2020 sem er góð veiði miðað við aðrar laxveiðiár í nágrenninu. Áin þolir veiði sumarið 2021. Um 30.000 seiðum var sleppt í ána árið 2020 og 20 þúsund laxaseiði voru sett í klak. Sumarið 2021 verður svipuðum fjölda seiða sleppt í ána og hafa þau verið í eldi frá hausti 2019. Orka náttúrunnar hefur tekið þetta verkefni föstum tökum.

Bakkavarnir hófust við Andakílsá í landi Efri-Hrepps sumarið 2020.

Skorradalsvatn

Vatnshæð Skorradalsvatns fór yfir viðmiðunarmörk Orku náttúrunnar í byrjun febrúar 2020 vegna mikilla vatnavaxta. Vatnshæð fór þó aldrei yfir leyfileg mörk miðlunarleyfis sem eru 63,10 m.y.s. Veðurstofa Íslands hefur útbúið innstreymislíkan fyrir Skorradalsvatn sem sýnir innstreymi í vatnið þrjá daga fram í tímann.

Seiðaslepping

Seiðum sleppt í eldistjörn við Andakílsá.