Jafnréttisstefna OR tekur til mannréttinda samkvæmt þeim þáttum sem tilgreindir eru í stjórnarskrá Íslands. Í siðareglum fyrirtækisins er einnig sérstakur kafli helgaður mannréttindum og jafnrétti. Fræðsla um þetta efni er reglubundin. Vorið 2018 gekkst OR samstæðan fyrir vinnustofum með skylduþátttöku alls starfsfólks um #metoo byltinguna og merkingu hennar fyrir vinnustaðarmenningu OR samstæðunnar. Á árinu 2019 voru vinnustofur með starfsfólki til undirbúnings nýs samskiptasáttmála samstæðunnar. Hann var gefinn út 2020.
OR hefur skráð verklag til að bregðast við telji starfsfólk eða starfsfólk verkataka sig verða fyrir óviðeigandi hegðun eða samskiptum á vinnustað. Þar eru boðleiðir skýrðar og þau úrræði sem OR býður þeim sem fyrir slíku verða standa til boða. Þetta verklag, sem kynnt er starfsfólki, hefur tilvísun í viðbragðsáætlun OR við einelti, ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni.
Varðandi áhrif á þróun mannréttindamála utan fyrirtækisins gerir OR kröfur til birgja fyrirtækisins í samræmi við innkaupastefnu OR, lög og reglur. Í undirbúningi eru siðareglur fyrir alla birgja OR. Í þeim segir meðal annars að birgir:
Styðji með virkum hætti jafnan rétt til starfsvals, launa og tækifæra í starfi með tilliti til kyns, kynþáttar, trúar, fötlunar eða stöðu að öðru leyti.
Virði alþjóðleg mannréttindi og stuðli að samstarfi og vinnuumhverfi þar sem einelti, kynferðislegt áreiti eða annað ofbeldi er ekki liðið.
Birgjar OR skulu gera samsvarandi kröfur til sinna birgja.
Nýstárleg fræðsla
Á árinu 2020 vann OR með uppistandarahópnum Improv Ísland að gerð fræðslumyndbanda fyrir starfsfólk um samskipti. Myndböndin eru á meðal skyldunáms starfsfólks samstæðunnar og í árslok 2020 höfðu 296 starfsmenn lokið námskeiðinu auk 32 sem höfðu hafið það.
Myndbandið að neðan er eitt fjögurra sem námskeiðið er samanstendur af.