Bjarni Bjarnason
Árið 2020 reyndi á okkur með óvæntum hætti. Við erum sæmilega sjóuð í að takast á við ýmis tilþrif náttúru og manna en heimsfaraldur er kynslóð okkar nýlunda. Hann gerir á suman hátt líkar kröfur til okkar og þau áföll sem við þekkjum betur, kröfur um samstöðu og dugnað, en krefst líka mikillar þrautseigju og þolinmæði.
Þegar spænska veikin herjaði á landið fyrir rúmri öld stóð undirbúningur yfir að því risaskrefi Reykjavíkurbæjar að virkja Elliðaárnar. Eftir talsverðar bollaleggingar um hvernig mannvirkinu yrði best hagað reis sú rafstöð sem við þekkjum enn í dag. Hún hefur nú skilað hlutverki sínu og fleytt samfélaginu inn í nútímann, nútíma þar sem við erum betur fær um að glíma við vágesti á borð við kórónufaraldurinn.
Faraldurinn greiddi íslensku atvinnu- og efnahagslífi þungt högg árið 2020. Heil atvinnugrein, ferðaþjónustan, þurrkaðist nánast út og eftir sátu brotin fyrirtæki og fólk án atvinnu. Því miður eru slíkar vendingar ekki nýlunda hér á landi og rifjaðist upp fyrir mörgum ástandið eftir hrunið fyrir rúmum áratug. Árið 2010 var Orkuveita Reykjavíkur komin að fótum fram og eigendur fyrirtækisins – Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð – þurftu að hlaupa undir bagga með neyðarláni svo reksturinn færi ekki í þrot. Því ánægjulegra er það að á vordögum nýliðins árs gat fyrirtækið brugðist skjótt við faraldrinum og aukið við fjárfestingar til viðspyrnu gegn atvinnuleysinu. Þannig leyfði góður árangur síðustu ára í endurreisn Orkuveitu Reykjavíkur fyrirtækinu að skila nokkru til baka af því sem eigendur höfðu lagt rekstrinum til þegar illa áraði hjá því. Tveimur milljörðum var bætt í fjárfestingar ársins 2020 og öðrum fjórum á árinu 2021 til viðspyrnu við efnahagsáfallinu vegna faraldursins.
Eitt af því sem glíman við þungan fjárhag Orkuveitunnar á sínum tíma kenndi okkur var að þegar ráðast þarf í breytingar er tækifæri til að breyta ýmsu í senn. Þannig var fjárhagsneyðin nýtt sem tækifæri til grundvallarbreytingar á menningu fyrirtækisins og stigin voru risaskref meðal annars í jafnréttismálum. Þær breytingar sem kórónuveiran knýr okkur í eru líka tækifæri til umbóta á ýmsum sviðum, innan fyrirtækis okkar og í samfélaginu öllu. Við Orkuveitufólk höfum sett okkur metnaðarfull markmið, sem breytingarnar vegna faraldursins eiga að geta hjálpað okkur við að ná. Markmiðin eru fimm talsins. Öll fyrirtækin í OR-samstæðunni vinna saman að þessum markmiðum, hvert á sínu starfssviði, og markverður árangur náðist á árinu 2020.
Orkuskipti í samgöngum eru eitt markmiðanna og við höfum heitið að leggja okkar af mörkum svo tengjanlegir rafbílar verði orðnir 40.000 fyrir árslok 2023. Uppbygging Orku náttúrunnar á hleðsluneti um land allt, samstarf Veitna við sveitarfélög á veitusvæðinu um uppsetningu búnaðar við opinber bílastæði og styrkir Orkuveitu Reykjavíkur til húsfélaga hafa vonandi átt þátt í því árið 2020 að rafbílar urðu meirihluti nýskráðra bíla á Íslandi í fyrsta sinn.
Eitt markmiðanna fimm lýtur að heilsu og öryggi starfsfólks. Við mælum fjarveru vegna veikinda eða slysa og í sem stystu máli þá þurfum við nú þegar að endurskoða þetta markmið. Fjarvera vegna veikinda var mjög lítil á árinu 2020 og liggur beinast við að tengja það fjarvinnu og að sóttvarnir vegna faraldursins drógu mjög úr umgangspestum. Vinnuslysum fækkaði og fjarvera vegna slysa dróst saman. Það er óskoraður réttur starfsfólks að koma heilt heim að starfsdegi loknum og á árinu beitti vinnustaðurinn nýjum aðferðum við að efla vitund starfsfólks um eigin ábyrgð í þeim efnum og lagði starfsfólki til einföld matstæki til að átta sig á hugsanlegum hættum í vinnuumhverfinu.
Starfsánægja innan OR-samstæðunnar jókst á árinu 2020. Þetta gerðist þrátt fyrir fordæmalaust umrót og umsnúning vinnunnar hjá verulegum hluta starfsfólksins vegna farsóttarinnar. Fyrirtækin í samstæðunni veita nauðsynlega grunnþjónustu og því gengum við lengra í sóttvörnum en víðast annarsstaðar. Kórónuveiran hefur enn sem komið er ekki valdið neinni röskun á þjónustu veitnanna. Farsóttin olli því að við urðum að sinna erindum viðskiptavina í stórauknum mæli með rafrænum hætti. Sú breyting er væntanlega varanleg.
Heimavinna fólks í faraldrinum hefur sýnt okkur að við getum aukið sveigjanleika í störfum verulega. Við höfum nú boðið öllu starfsfólki, sem þess á kost, fjarvinnu einn til tvo daga í viku. Fjarvinna fækkar ferðum til og frá vinnu, léttir á umferðarþunga og dregur úr kolefnislosun. Líklega minnkar þörfin fyrir skrifstofurými líka en það á eftir að koma í ljós. Endurbygging Vesturhússins að Bæjarhálsi stendur nú fyrir dyrum. Með aukinni fjarvinnu getum við hugsanlegt leigt stærri hluta húsnæðisins út en gert var ráð fyrir.
Gagnsemi ljósleiðarans hefur nú sannað sig svo um munar. Án hans væri fjarvinna óhugsandi með þeim hætti sem við höfum nú tileinkað okkur. Hraðinn í gagnaflutningi gerir okkur kleift að fjartengjast öllum kerfum í vinnunni eins og við værum á staðnum. Á árinu 2020 fjölgaði þeim sveitarfélögum sem njóta Ljósleiðarans. Samkeppni á fjarskiptamarkaði er síkvik og því er það ánægjuefni að samningar tókust við stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins, Símann, um notkun ljósleiðara Gagnaveitunnar.
Annar kvikur samkeppnismarkaður er raforkumarkaðurinn og á árinu 2020 rann upp fyrir mörgum að það þarf að halda vel á spöðunum eigi rafmagnsvinnslan áfram að vera sú styrka stoð íslensks efnahagslífs sem hún hefur verið um áratuga skeið. Það er ánægjulegt að atvinnuþróun í Jarðhitagarði ON við Hellisheiðarvirkjun snýst ekki eingöngu um að koma rafmagni á markað heldur nýta þau fyrirtæki sem þar hafa haslað sér völl margvíslegar afurðir jarðhitans. Auk rafmagns er það varmi og jarðefni á borð við kísil og koldíoxíð auk þess sem þar er nægt ferskvatn að fá. Fjölnýting jarðhitans verður sífellt mikilvægari, ekki bara fjárhagslega heldur ekki síður til að hún standist þær kröfur sem við eigum að gera til sjálfra okkar um skynsamlega og sjálfbæra nýtingu náttúrugæða.
Hellisheiðin er líka helsti vettvangur okkar eigin atvinnuþróunar en í byrjun árs 2020 tók Carbfix ohf. til starfa, þróunarfyrirtæki á sviði kolefnisförgunar og baráttunnar gegn loftslagsvánni. Sú mikla þekking sem býr í þessum sprota er afrakstur margra ára samstarfs Orkuveitu Reykjavíkur og Háskóla Íslands ásamt vísindafólki við háskóla og stofnanir erlendis.
Á heildina litið var árið 2020 farsælt í starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur, þrátt fyrir farsóttina. Reksturinn er fjárhagslega traustur og viðhorf til fyrirtækisins bendir til þess að það starfi í vaxandi sátt við samfélagið sem það þjónar. Þá sátt má efla enn frekar. Þar skiptir gegnsæi í rekstrinum og virðing fyrir þörfum viðskiptavina miklu máli. Ársskýrsla Orkuveitu Reykjavíkur, sem unnin er í samræmi við alþjóðleg viðmið um samfélagslega ábyrgð, er innlegg í það samtal sem stöðugt þarf að eiga sér stað um frammistöðu fyrirtækisins vegna þess mikilvæga hlutverks sem því er ætlað – hvað vel er gert og hvar þarf að gera betur.