Ávarp stjórnarformanns

Brynhildur Davíðsdóttir

Ef það er eitthvað sem við höfum lært af faraldrinum, sem enn geisar um heiminn, er það að við getum breytt háttum okkar, og það hratt. Þegar í nauðirnar rekur snúum við lífi okkar á haus, iðandi vinnustaðir eru margir mannlausir og við höfum vanið okkur af ýmsu sem okkur var tamt.

Um leið og faraldurinn er skuggalegur og í mörgum efnum sorglegur þá bera viðbrögð okkar við honum samt með sér að okkur eru ýmsar leiðir færar og við getum farið að skilgreina svolítið þrengra en áður hvað er hægt og hvað ekki.

Loftslagsváin ekki að fara neitt

Einn stærsti vandinn sem blasti við okkur í ársbyrjun hefur ekki farið neitt. Loftslagsváin vofir enn yfir og áríðandi er að nýta þá reynslu í gertækum breytingum sem heimsfaraldurinn hefur útvegað okkur til að ná tökum á þeim vanda. Þau þáttaskil urðu í byrjun nýliðins árs að hið árangursríka vísinda-, þróunar- og nýsköpunarstarf innan Carbfix-verkefnsins tók út þann þroska að verða sjálfstætt dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur. Markmiðið með breytingunni er að gefa öðrum fyrirtækjum kost á að nýta sér förgunaraðferð fyrirtækisins á koldíoxíði á viðskiptalegum grunni. Auk þess að eiga stærstan þátt í minnka kolefnisspor Orkuveitu Reykjavíkur um tugi prósenta frá viðmiðunarárinu 2015, hefur sú athygli sem Carbfix hefur fengið innan og utan landsteinanna orðið til að beina sjónum að loftslagsvánni og ekki síður því að til eru margvíslegar leiðir til að glíma við vandann. kolefnishlutleysi er grundvallaratriði í sjálfbærum rekstri og það er eitt höfuðmarkmiða Orkuveitu Reykjavíkur.

Samfélagslegt hlutverk Orkuveitu Reykjavík er skýrt skráð af hálfu eigenda í eigendastefnu og sameignarsamningi. Því er síðan úthlutað til viðeigandi dótturfélaga, lögum samkvæmt.

Áhersla á fimm Heimsmarkmiðanna

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur í stefnu sinni um samfélagsábyrgð sett Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem viðmið í sinni stefnumótun. Áherslumarkmiðin eru fimm. Tvö þeirra – þau sem víkja að áreiðanleika vatns- og fráveitu og vinnslu á sjálfbærri orku – falla að kjarnastarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur en hin þrjú – aðgerðir í loftslagsmálum, ábyrg neysla og framleiðsla og jafnrétti kynjanna – segja fremur til um hvernig við viljum sinna hlutverki okkar í stærra samhengi. Í þessari ársskýrslu er frammistaða fyrirtækisins heimfærð upp á þessi og reyndar önnur Heimsmarkmið. Þannig er lesandinn betur í stakk búinn að meta hvort frammistaða fyrirtækjanna í OR-samstæðunni sé í samræmi við ábyrgð þeirra gagnvart þeim samfélögum sem þau þjóna og gagnvart samfélagi þjóðanna. Á árinu 2020 ákváðu Carbfix og Orka náttúrunnar einnig hvaða Heimsmarkmið þau leggja áherslu á. Verið er að innleiða þær áherslur í stefnu þeirra og undirbúa frekari innleiðingu Heimsmarkmiðanna í önnur fyrirtæki í samstæðunni.

Heimsmarkmið 5 saman ÍSL.png

OR leggur áherslu á fimm Heimsmarkmiðanna í allri starfsemi samstæðunnar.

Fjarfundir stjórnar

Kórónuveiran setti óumflýjanlega mark sitt á starf stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur á árinu. Fundir voru flestir með öðrum hætti en áður og þeir voru fleiri. Einungis tveir stjórnarfundir, á fyrstu mánuðum ársins 2020, voru haldnir með hefðbundnum hætti. Eftir það voru níu fundir haldnir alfarið með rafrænum hætti og þrír fundir með blönduðu sniði. Fundarsókn aðalmanna í stjórn var prýðileg og meiri en alla jafna. Breytt fyrirkomulag fundanna kann að hafa auðveldað stjórnarfólki að sækja fundi sem það annars hefði ef til vill ekki haft tök á að mæta á. Auk formlegra stjórnarfunda var vinnudagur stjórnar OR haldinn í Hellisheiðarvirkjun í ágústmánuði. Starfsáætlun stjórnar fyrir árið gekk vel eftir og á árinu lagði stjórnin hvorttveggja mat á eigin störf og störf forstjóra. Á árinu 2020 varð samhugur um það í stjórninni að bjóða Starfsmannafélagi Orkuveitu Reykjavíkur sæti áheyrnarfulltrúa. Það var þegið og formaður félagsins var tilnefndur af félaginu

Handahafar eigendavalds í Orkuveitu Reykjavíkur – sveitarstjórar Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar – komu þrisvar til fundar á árinu. Aðalfundur var haldinn í apríl, reglubundinn eigendafundur með áherslu á fjármál í nóvember og í mars var haldinn sérstakur fundur með eigendum þar sem þeir, stjórn og stjórnendur OR stilltu saman strengi um viðbrögð við áhrifum Covid-19.

Stjórnendur, stjórn og eigendur Orkuveitu Reykjavíkur hafa í sameiningu tekið á stærstu viðfangsefnum á starfssviði fyrirtækisins síðustu ár. Þar má minnast Plansins, endurreisnaráætlunar í fjármálum OR á árunum 2011-2016 og nú eru það áhrif kórónuveirunnar. Strax á fyrsta ársfjórðungi 2020, þegar ljóst varð að það stefndi í verulegar búsifjar víða vegna veirunnar, tókst gott samstarf þarna á milli í því augnamiði að styrkur OR nýttist til að spyrna við fótum. Niðurstaða þess samstarfs var sú að arðgreiðslur á árinu 2020 voru auknar og margvíslegum fjárfestingarverkefnum víða um starfssvæðið var flýtt. Það er allra hagur þar sem fleiri fá vinnu, tekjur sveitarfélaganna vegna atvinnuleysis rýrna því minna en ella og líkur á því að fá hagstæð tilboð í verk eru meiri.

Þakkir til starfsfólks og stjórnenda

Árið 2020 var vonandi einstakt en það var líka einstakt að starfa með stjórnendum fyrirtækisins og starfsfólki við að halda úti þeirri grunnþjónustu sem fyrirtækin í OR-samstæðunni veita á afar krefjandi tímum. Þjónustubrestur vegna faraldursins varð enginn. Það sýnir að á sama tíma og Orkuveita Reykjavíkur er stórt fyrirtæki og traust þá býr starfsfólk þess og stjórnendur yfir mikilli lipurð og sveigjanleika sem kom viðskiptavinum svo sannarlega til góða á þessu fordæmalausa ári.

Ég þakka starfsfólki Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaganna allra, stjórnendum og samstarfsfólki mínu í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fyrir afbragðs gott starf á árinu 2020.