Samfélag

Reykjavík 1987
Reykjavík 1987
Reykjavík 2021
Reykjavík 2021

OR, Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur gegna því samfélagslega hlutverki að fólk njóti vatnsveitu, fráveitu, rafveitu, hitaveitu og gagnaveitu. Yngsta dótturfélagið, Carbfix, vinnur gegn loftslagsvánni. Veigamesta samfélagslega ábyrgð Orkuveitu Reykjavíkur felst í því að grunnþjónusta sé áreiðanlega fyrir hendi, á sanngjörnu verði og að ánægja sé meðal viðskiptavina með þjónustuna. Það skiptir ekki eingöngu máli að þjónustan sé fyrir hendi heldur líka hvernig hún er veitt.

OR vill vera eftirsóknarverður vinnustaður og lítur svo á að hæft og ánægt starfsfólk sé forsenda þess að markmiðum verði náð. Á íslenskan mælikvarða er OR samstæðan stór og því gætir áhrifa starfshátta hennar víða um samfélagið. OR vill vera til fyrirmyndar og leitar stöðugra úrbóta við að rækja samfélagslega ábyrgð sína.

Fyrirtækin innan samstæðunnar fylgjast stöðugt með ánægju viðskiptavina með því að gera reglubundnar þjónustukannanir. Niðurstaða þeirra myndar vísitölu og þróun hennar á árunum 2017 til og með 2020 er sýnd hér að neðan.

Ánægja viðskiptavina 2017-2020

*Mælingum Gagnaveitu Reykjavíkur á ánægju með þjónustu Ljósleiðarans var breytt á árinu 2019. Nú er vikulega hringt í um 100 viðskiptavini og þau spurð út í ánægju með þjónustuna. Símtölin á árinu 2020 voru 5.067 en 4.804 árið 2019.

Orka náttúrunnar hlýtur Íslensku ánægjuvogina annað árið í röð

Ánægja viðskiptavina Orku náttúrunnar samkvæmt mælingum fyrirtækisins jókst á milli áranna 2019 og 2020. Annað árið í röð varð fyrirtækið efst íslenskra raforkusala í Íslensku ánægjuvoginni. Viðurkenning þess efnis var veitt í janúar 2021. Einkunn Orku náttúrunnar í þeirri mælingu árið 2020 hækkaði einnig milli áranna 2019 og 2020.

Ánægjuvogin - ON - IS.png

Þjónustuöryggi veitnanna

Útreikningur á afhendingaröryggi er byggður á aðferð sem lengi hefur verið við lýði hjá rafveitunum. Hún byggist á því að samanlögð lengd hverrar truflunar hjá þeim notendum sem fyrir henni verða er deilt niður á alla viðskiptavini hverrar veitu. Veitur tóku þessa aðferð upp fyrir hitaveitu árið 2015 og fyrir vatnsveitu 2016. Myndritið byggir á fyrirvaralausum truflunum, þegar ekki er hægt að gera viðskiptavinum viðvart um truflunina fyrirfram. Fordæmalaus aukning á milli ára á notkun á heitu vatni skerti afhendingaröryggi þess á árinu 2020.

Verðlagsþróun sérleyfisþjónustu Veitna

Frá því að Orkuveitu Reykjavíkur var skipt upp að lagaboði í ársbyrjun 2014 hafa gjaldskrár sérleyfisþjónustu ýmist lækkað talsvert eða nánast staðið í stað að raungildi. Þann 1. janúar 2014 kostaði dreifing á rafmagni 4,24 kr./kWst en þann 1. janúar 2021 3,91 kr./kWst. Á sama tímabili hækkaði vísitala neysluverðs um 17,8% og launavísitala um 60,3%. Þann 1. janúar 2014 var fermetragjald vatnsveitu 213,05 kr./fm en þann 1. janúar 2021 207,71 kr./fm. Línuritið að neðan sýnir hvernig gjaldskrár sérleyfisþjónustu Veitna hafa þróast frá ársbyrjun 2014 miðað við vísitölu neysluverðs, sem sýnd er sem lárétt lína. Raunlækkun rafmagnsdreifingar er 24%, raunlækkun vatnsgjalds 19%, raunlækkun hitaveitu 3% en 3% raunhækkun varð á gjaldskrá fráveitu frá ársbyrjun 2014 til ársloka 2020.

Þróun gjaldskráa veituþjónustu 2014-2020

Starfsánægja

OR og dótturfélögin hafa gengið í gegnum miklar breytingar síðustu ár. Ánægja starfsfólks samkvæmt reglubundnum vinnustaðargreiningum hefur vaxið og mælst á styrkleikabili allt frá árinu 2014. Starfsánægja á árinu 2020, sem var mjög sérstakt vegna áhrifa kórónuveirunnar á vinnustaðinn, jókst frá fyrra ári og telst nú sem fyrr á meðal styrkleika fyrirtækjanna.

Skattaspor OR

KPMG hefur tekið saman skattaspor OR samstæðunnar á árinu 2020. Skattaspor OR samanstendur af sköttum sem eru gjaldfærðir í rekstri samstæðunnar og þeim sköttum sem félögin innan hennar innheimtu og stóðu skil á til ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða.

Á árinu 2020 nam skattaspor OR samtals 8.785 mkr. Skýrsla um það er í viðhengi að neðan.

Stjórnstöð

Á eldri myndinni sitja Rúnar Svavar Svavarsson rafmagnsverkfræðingur og Gunnar Aðalsteinsson framan við uppdrátt af dreifikerfi rafmagns í Reykjavík árið 1989 með nokkur símtæki til að hafa samband við samstarfsfólk. Rúnar starfar enn hjá Veitum og á nýrri myndinni er hann framan við mikinn tölvuskjá sem sýnir rafdreifikerfið í smæstu atriðum og gefur kost á fjarstýringu stórs hluta þess.

Myndir: Ljósm.safn OR