F8 Hnattræn heilsa og öryggi

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna
Heilsa og vellíðan

Veikindi starfsfólks

OR hefur stefnu í öryggis- og heilsumálum sem er reglulega rýnd af stjórn OR. Eitt af markmiðum OR samstæðunnar er að draga úr fjarveru starfsfólks vegna slysa og veikinda. Markmiðið var að hún yrði komin niður fyrir 3,6% af heildarfjölda vinnustunda fyrir árslok 2023. Fækkun slysa og fækkun veikindadaga á árinu 2020 hefur lækkað þessa tölu gott betur og stóð hún í 2,7% í árslok 2020.

Veikindadögum fækkaði verulega á árinu 2020 og má örugglega rekja það til tvenns konar áhrifa af kórónuveirufaraldrinum. Í fyrsta lagi vann starfsfólk að verulegu leyti heiman frá sér og má gera ráð fyrir að það hafi sinnt störfum sínum þrátt fyrir veikindi sem annars hefðu valdið fjarveru frá vinnu. Hins vegar höfðu almennar sóttvarnir vegna faraldursins þau áhrif að ýmsar umgangspestir, sem valdið hefðu veikindafjarveru, voru fátíðar og náðu lítilli útbreiðslu vegna samkomutakmarkana.

Starf OR að heilsueflingu starfsfólks tók stakkaskiptum á árinu 2020 vegna faraldursins. Heimavinna starfsfólks, samkomutakmarkanir, lokun heilsuræktar starfsfólks við Bæjarháls og fleira flutti nánast alla miðlun upplýsinga og hvatningar yfir á netið.

Mikil áhersla var lögð á að starfsfólk hugaði að heilsu sinni, andlegri og líkamlegri, í því fordæmalausa ástandi sem af faraldrinum hlaust. Skipulögð voru rafræn námskeið og fyrirlestrar af ýmsu tagi til að virkja starfsfólk til heilsueflingar. Tekinn var frá tími í dagbókum alls starfsfólks til að minna það á að standa upp frá heimavinnunni og fólk var hvatt til að gæta sérstaklega að skilum á milli vinnu og einkalífs.

Álestur mæla

Eldri myndirnar, sem eru frá því um 1980, sýna notkunarmælingar eins og þær voru stundaðar. Álesari fór í heimahús, skráði niður notkunina og síðan voru upplýsingarnar slegnar handvirkt inn í reikningakerfið. Álestur viðskiptavina sjálfra hefur færst mjög í vöxt seinni árin en nýrri myndin sýnir sjálfvirkan heitavatnsmæli, sem sendir notkunarupplýsingar sjálfvirkt í gagnabanka Veitna. Slíkir mælar verða alls ráðandi innan nokkurra ára.

Myndir: Ljósm.safn OR