S5 Siðareglur birgja

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna
Heilsa og vellíðan Ábyrg neysla

Við rýni stjórnar OR á innkaupastefnu fyrirtækisins, í mars 2020, var skerpt á sjálfbærnimarkmiðum stefnunnar. Í samræmi við það voru undirbúnar Siðareglur birgja OR, byggðar á innkaupastefnunni og tíu grundvallarreglum Global Compact, sem OR á aðild að. Samhliða var mótað verklag um viðbrögð OR við upplýsingum um frávik. Innleiðing reglnanna meðal birgja er í undirbúningi. Kröfur sem eru að lágmarki samsvarandi þeim sem eru í Siðareglum birgja OR er að finna í skilmálum allra útboða á vegum OR. Þannig eru sjálfbærnikvaðir nú þegar á um 40% allra innkaupa samstæðunnar. Á bak við þau innkaup eru hinsvegar einungis 12% birgjanna. Markmið OR með útgáfu Siðareglna birgja OR er að þær sjálfbærnikröfur sem gerðar eru í útboðum nái einnig til smærri birgja.

Það er stefna OR að beita opnum útboðum við kaup á vörum, þjónustu og verkframkvæmdum og að hagstæðasta tilboði sé tekið. Að öðrum kosti skal beita lokuðum útboðum, verðfyrirspurnum meðal sem flestra, beinum samningum eða beinum innkaupum. Hversu hagstæð tilboð eru er oft metið með tilliti til fleiri þátta en verðs. Þar á meðal eru öryggismál, umhverfismál og þá eru ákvæði í útboðsgögnum til að berjast gegn kennitöluflakki.

OR hefur innleitt keðjuábyrgð í verksamningum í því skyni að standa vörð um réttindi starfsfólks verktaka og undirverktaka þeirra. Verktakamat er byggt á frammistöðu þeirra í öryggismálum, umhverfismálum, gæðum verks og gagnaskilum. Ef frammistaða í verktakamati er óviðunandi er viðskiptum hætt tímabundið.

Samstæða OR hefur ekki skimað birgja eftir umhverfisvísum. Fyrirtækin hafa ekki undir höndum mat á mögulegri eða raunverulegri hættu á neikvæðum umhverfisáhrifum í aðfangakeðju þeirra eða viðbrögð við slíkum áhrifum. Á árinu 2020 hóf OR að setja ákvæði um öflun kolefnisspors vöru í útboðsgögn.

Ekkert tilvik var á árinu 2020 um að tilboði væri hafnað vegna gruns um kennitöluflakk né vegna óviðunandi niðurstöðu úr verktakamati. Síðasta slíka tilvik var árið 2017, að tilboði í eitt verk var hafnað í samræmi við aðgerðir OR gegn kennitöluflakki.

Hellisheiðarvirkjun

Myndirnar eru teknar frá svipuðu sjónarhorni með stuttu millibili, sú eldri árið 2005 og sú síðari árið 2008. Fyrsti áfangi Hellisheiðarvirkjunar var tekinn í notkun árið 2006 og ljóst að tilkoma hennar hefur afgerandi áhrif á ásýnd svæðisins. Kapp hefur verið lagt á að ganga sem best frá þar sem framkvæmdirnar ollu raski.