S8 Sjálfbærniskýrsla

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna
Ábyrg neysla

Fjöldamargir þættir ráða því hvort starfsemi OR og dótturfyrirtækjanna - Veitna, Orku náttúrunnar, Gagnaveitu Reykjavíkur og Carbfix - er sjálfbær. Í þessari samþættu skýrslu er gerð grein fyrir þeim þáttum sem OR telur mikilvægasta. OR lítur því á Ársskýrslu hvers árs sem sjálfbærniskýrslu fyrirtækisins. Þessi skýrsla er hluti ársreiknings Orkuveitu Reykjavíkur sem birtur er opinberlega í kauphöll. Á vefjum fyrirtækjanna innan samstæðunnar er jafnframt að finna ýmsar upplýsingar um umhverfismál, fjármál og starfsmannamál sem uppfærðar eru oftar en árlega.

Auk Ársskýrslu skilar OR margvíslegum gögnum til opinberra eftirlitsaðila í samræmi við starfsleyfi fyrirtækjanna í samstæðunni. Þar eru umfangsmest ýmis gögn um auðlindanýtingu hvers árs. Með aðild að ýmsu samstarfi skilar OR einnig opinberum skýrslum um ýmsa sjálfbærniþætti starfseminnar. Þar má nefna:

  • Framvinduskýrslur vegna útgáfu grænna skuldabréfa
  • Skýrslur til Climate Disclosure Project
  • Framvinduskýrslur verkefna sem skráð hafa verið á vefinn heimsmarkmidin.is
  • Skýrslur til Global Compact

Á árinu 2018 kom út skýrsla í kjölfar alþjóðlegrar úttektar á sjálfbærni Hellisheiðarvirkjunar. Úttektin er byggð á matslykli fyrir jarðgufuvirkjanir – Geothermal Sustainability Assessment Protocol (GSAP) – sem er í þróun á vegum íslenskra stjórnvalda og jarðgufufyrirtækjanna í landinu. Hellisheiðarvirkjun er fyrsta virkjunin í rekstri sem honum var beitt á. Meginniðurstaða sjálfbærnimatsins var að Hellisheiðarvirkjun hefur lítil neikvæð áhrif á umhverfi og samfélag og mikilvæg jákvæð félagsleg og hagræn áhrif, einkum með vinnslu á hreinni og ódýrri raforku og heitu vatni til að mæta þörfinni á höfuðborgarsvæðinu. Þó leiddi matið í ljós frávik frá fyrirmyndarframmistöðu sem Orka náttúrunnar er að ráða bót á.