Jarðhitagarður á Hellisheiði

Í Jarðhitagarði ON við Hellisheiðarvirkjun í Sveitarfélaginu Ölfusi, er leitað leiða til að auka fjölbreytta notkun á varma, rafmagni, vatni og jarðhitalofttegundum frá virkjuninni. Fjölbreytt notkun jarðhitans getur aukið hagkvæmni og eflt umhverfisvænan rekstur og nýsköpun í atvinnulífi. Yfirlit yfir orkutengda auðlindastrauma sem unnt er að nýta í starfsemi í Jarðhitagarði sést á mynd.

Yfirlit yfir orkutengda auðlindastrauma í Jarðhitagarði við Hellisheiðarvirkjun

Yfirlit yfir orkutengda auðlindastrauma í Jarðhitagarði við Hellisheiðarvirkjun

Dæmi um bætta nýtingu auðlindastrauma er að ýmis orkutengd aðföng eru nýtt af svissneska nýsköpunarfyrirtækinu Climeworks. Verið er að reisa loftsugur í Jarðhitagarði ON sem munu fanga um 4.000 tonn af koltvíoxíði úr andrúmslofti árlega og steinrenna það í berglögum í samstarfi við Carbfix og Orku náttúrunnar. Ennfremur nýtir alþjóðlega sprotafyrirtækið VAXA (áður Algaennovation) orkutengd aðföng í smáþörungaverksmiðju í Jarðhitagarði ON. Auk þess er skiljuvatn frá Hellisheiðarvirkjun notað til framleiðslu á fæðubótarefni hjá fyrirtækinu GeoSilica. Talsvert af koltvíoxíði fellur til við raforkuframleiðslu á Hellisheiði. Ýmis sprotafyrirtæki hafa sýnt áhuga á því að nýta koltvíoxíðið og fleira frá virkjuninni.

Orka náttúrunnar framleiðir vetni við Hellisheiðarvirkjun í tilraunaskyni sem er hluti af þróunarverkefni á vegum Evrópusambandsins, Hydrogen Mobility Europe. Orkuframleiðsla í virkjuninni er nýtt til vetnisframleiðslu á þeim tímum sem minni eftirspurn er eftir rafmagni og nýtist vetnið fyrir almenning og atvinnulíf vegna orkuskipta í samgöngum.

Ríkar kröfur eru gerðar til fyrirtækja sem ætla að starfa í Jarðhitagarði ON vegna vatnsverndar, ásýndar, ónæðis og umgengni. Á byggingatíma verkefna er gerð krafa um endurnýtingu gróðurþekju sem fellur til. Hún er notuð í frágang þegar jarðvinnu líkur eða nýtt annarstaðar þar sem hennar er þörf.