Losun vegna fráveitu

Veitur annast uppbyggingu og rekstur fráveitu í þéttbýli í Reykjavík, á Akranesi og í Borgarbyggð. Frárennsli frá Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi auk hluta Garðabæjar er hreinsað í hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða, alls frá um 60% þjóðarinnar.

Frárennsli frá um 60% þjóðarinnar er hreinsað í hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða í Reykjavík.

Frárennsli frá um 60% þjóðarinnar er hreinsað í hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða í Reykjavík.

Hreinsistöðvar á Vesturlandi

Hreinsistöðvar á Vesturlandi

Á safnsvæði Veitna hafa íbúar og atvinnulíf aðgang að veitukerfi eða skólphreinsun í samræmi við lög og reglur.

Langtímamarkmið Veitna er að strendur borgarinnar verði ávallt hreinar enda er fjaran skilgreind sem útivistarsvæði í aðalskipulagi. Losun óhreinsaðs skólps um yfirfallsútrásir er þó órjúfanlegur hluti þess fráveitukerfis sem byggt hefur verið upp á liðnum áratugum. Svo mun verða um næstu framtíð meðan blöndu skólps og ofanvatns er veitt um safnkerfi fráveitunnar, það á við um 28% af kerfinu.

Dæmi um aðgerðir til að nálgast fyrrnefnda framtíðarsýn og hafa gengið vel eru markviss lekaleit, breytt verklag í viðhaldi dælustöðva ásamt endurskoðun hönnunarforsendna fyrir nýjar stöðvar. Breytt verklag hefur árið 2020 aukið rekstraröryggi skólpdælustöðvanna í Faxaskjóli og Skeljanesi og í auknum mæli hefur verið unnt að sinna viðhaldi án þess að stöðva rekstur og losa óhreinsað skólp í sjó. Þessar aðgerðir stuðla ennfremur að bættu vinnuumhverfi og öryggi starfsfólks. Unnið er að langtímaáætlunum um fulla aðgreiningu óviðkomandi vatns frá skólpkerfinu.

Niðurstöður mælinga á skólpmengun við jaðar þynningarsvæða í Faxaflóa árið 2020 sýna að fjöldi örvera var undir viðmiðunarmörkum fyrir saurkólígerla og saurkokka í öllum þeim mælingum sem gerðar voru á árinu. Í grennd við yfirfallsútrásir Veitna í Reykjavík og víðar meðfram strönd borgarinnar reyndust 93 sýni af 100 vera undir viðmiðunarmörkum um saurkólígerla sem þýðir mjög lítil eða engin saurmengun samkvæmt reglugerð 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. 97 sýni voru undir viðmiðunarmörkum um saurkokka.

Örverustyrkur í grennd við útrásir frá lífrænu hreinsistöðvum Veitna á Vesturlandi hefur mælst yfir mörkum sem skilgreind eru starfsleyfi undanfarin ár. Sjá árlegar yfirlitsskýrslur sýnatöku og mælinga sem aðgengilegar eru á vef Veitna.

Blágrænar ofanvatnslausnir

Veitur vinna áfram að innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna í samvinnu við sveitarfélög til að hægja á rennsli regnvatns af götum, vegum og öðrum svæðum ofan í fráveitukerfið og draga úr líkum á losun um yfirföll í fráveitukerfinu. Íbúar og fyrirtæki hafa sýnt aukinn áhuga á að hefta afrennsli af lóðum með þessum lausnum Veitur hafa látið meta áhrif yfirborðslausna í Laugardal og sambærileg vinna er hafin í Vatnsmýri og vatnasviði Rauðarár í Reykjavík.

Ábyrg neysla

Magn sótthreinsi- og blautklúta ásamt öðru rusli í fráveitunni margfaldaðist vorið 2020, í fyrstu Covid bylgjunni, með þeim afleiðingum  að skólphreinsistöð Veitna við Klettagarða í Reykjavík varð óstarfhæf um tíma og beina þurfti óhreinsuðu skólpi í sjó. Veitur hafa ítrekað hvatt fólk til að nota salernin ekki sem ruslafötur sem veldur álagi á búnað og umhverfið.