U7 Umhverfis­starfsemi

Umhverfis- og auðlindastefna

Samstæða OR starfar eftir umhverfis- og auðlindastefnu sem er skuldbinding OR um stöðugar umbætur í umhverfismálum. Hún byggir á sex meginreglum sem eiga við allar starfseiningar: Loftslag og loftslagsáhættu, ábyrga auðlindastýringu, gagnsemi sem felst í aðgangi að veitum fyrirtækisins, áhrif losunar vegna starfseminnar, áhrif í samfélaginu og starfsemi fyrirtækisins. Áhersla er lögð á verndun neysluvatns, sjálfbærari nýtingu auðlinda, kolefnishlutleysi 2030 og sporlétta vinnslu og starfsemi. Í daglegri starfsemi er lögð áhersla á að nýta vel orku og aðföng í samvinnu við birgja og verktaka. Stefnan nýtist sem grundvöllur góðs samstarfs við hagsmunaaðila.

Samstæðan hefur skilgreint þýðingarmikla umhverfisþætti með hliðsjón af þeim meginreglum sem fram koma í umhverfis- og auðlindastefnunni. Sett hafa verið ný markmið um losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda, ábyrga neysluhegðun og orkuskipti í samgöngum.

Starfsemi samstæðu OR er ekki vottuð samkvæmt formlegu orkustjórnunarkerfi.

Ábyrg meðhöndlun úrgangs

Losun gróðurhúsalofttegunda frá urðuðum úrgangi hefur aukist frá árinu 2015.

Hlutur úrgangs úr hreinsistöðvum fráveitu er mestur og er um 60% af heildarmagni urðaðs úrgangs. Takmarkaður möguleiki er fyrir Veitur að stýra því hve mikill úrgangur af þessari gerð fellur til í hreinsistöðvum þar sem hann kemur frá íbúum og atvinnulífi á veitusvæðinu. Veitur hafa í auglýsingaherferðum minnt á þann skaða sem blautþurrkur og annað rusl geta valdið í fráveitukerfinu en stefna einnig að bættri nýtingu seyru og fitu.

Magn annars úrgangs en fráveituúrgangs ýmist dróst saman eða jókst. Í viðaukum má sjá hvernig úrgangur skiptist á milli úrgangsflokka, starfsstöðva og sveitarfélaga.

Flokkun úrgangs hjá samstæðu OR 2015-2020